Innra eftirlit og áhættustýring

Árangurrík áhættustjórnun er mikilvægur þáttur í rekstri Skeljungs. Markmið félagsins er að stýra áhættu á skilvirkan hátt og tryggja meðvitund um gagnsæi áhættustýringar á öllum stigum, allt frá stjórn niður á einstaka starfsmenn. Áhættustýring félagsins miðast að því að áhætta sé í samræmi við áhættuvilja og stefnu félagsins og þannig stuðla að auknum stöðuleika og langtíma arðsemi.  

Stjórn, ásamt forstjóra, hefur forystu um að móta stefnu, setja markmið og skilgreina áhættuviðmið félagsins auk þess að koma á virku kerfi innra eftirlits. Í því felst m.a. að fyrirkomulag innra eftirlits sé formlegt, skjalfest og að virkni þess sé sannreynt reglulega. 

Áhættunefnd starfar undir stjórn Skeljungs og hefur það hlutverk að staðreyna virkni áhættustýringar innan fyrirtækisins. Nánar tiltekið ber nefndin m.a. ábyrgð á og svarar fyrir gagnsemi og virkni áhættustýringar, sinnir ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn, fylgist með og metur með reglulegu millibili árangur áhættustjórnunarinnar og gerir þær breytingar á markmiðasetningu og framkvæmd sem nauðsynlegar kunna að vera, rýnir helstu áhættuþætti og áhættuprófíl fyrirtækisins, rýnir áhættuskýrslur áður en þær eru lagðar fyrir stjórn og rýnir viðbragðsáætlanir. Aðgerðir félagsins á sviði áhættustjórnunar miða að því að skilgreina, meta, mæla og stýra áhættu í starfsemi félagsins í samræmi við áhættuvilja þess.

Áhætta Skeljungs felst í mögulegum atburðum sem aftrað geta félaginu frá því að ná markmiðum sínum. Skeljungur fæst meðal annars við innflutning, birgðahald, dreifingu og sölu á eldsneyti, efnavörum til iðnaðar og matvælaframleiðslu og áburði, lýtur Skeljungur ýmsum opinberum reglum og viðmiðum. Áhættustjórnun félagsins tekur tillit til allra tegunda áhættu, s.s. á sviði fjárhags, rekstrar, umhverfis og gæða. Helstu fjárhags- og reksrarlegur áhættur félagsins að mati stjórnenda eru olíuverðsáhætta, gengisáhætta, vaxta- og fjármögnunaráhætta og lánsáhætta. Hér að neðan er nánar fyrir yfir helstu áhættuþætti sem snúa að fjárhag og rekstri félagsins en nánari útlistun á áhættuþáttum má finna í skráningarlýsingu félagsins.

Olíuverðsáhætta

Veigamikil áhætta félagsins er verðáhætta vegna breytinga á heimsmarkaðsverði á olíu en heimsmarkaðsverð hefur undanfarin ár verið afar sveiflukennt. Áhættan myndast frá þeim tíma sem innkaup á olíu eiga sér stað og þar til hún er seld til viðskiptvinar. Mismunur á innkaups og söluverði getur haft bein áhrif á framlegð félagsins. Þá getur hátt verð á olíu í einhverjum tilfellum dregið úr eftirspurn og þannig haft áhrif á afkomu félagsins.

Áhættustýring Skeljungur felst í því að draga úr olíuverðsáhættu með margvíslegum hætti. Leitast við að lágmarka birgðir á hverjum tíma í samræmi við áhættustefnu félagsins og þannig draga úr þeim áhrifum sem sveiflur á olíuverði geta valdið. Dregið er úr áhættu með því að haga fyrirkomulagi við kaup og sölu með sambærilegum hætti í sérsamningum við stærstu viðskiptavini félagsins. Félagið notar einnig framvirka samninga til að verja óseldar birgði milli tímabila. Það er þó þannig að félagið heldur yfirleitt á óseldum birgðum á hverjum tíma þannig hækkandi olíuverð hefur að jafnaði jákvæð rekstrarleg áhrif en eykur á móti fjárbindingu í félaginu. Þessu er öfugt farið þegar olíuverð fer lækkandi.

Heimsmarkaðsverð á bensíni og dísil sveiflaðist töluvert innan ársins. Bensín hækkaði um 28% og dísil hækkaði um 57% í USD innan ársins 2016. Hér að neðan má sjá sveiflur í heimsmarkaðsverði bensín og dísel síðustu tvö árin. 

 

Olíuverð

Gengisáhætta

Gengisáhætta er hættan á því að breytingar á markaðsverði erlendra gjaldmiðla hafi neikvæð áhrif á áhrif á framlegð samstæðunnar, niðurstöður rekstur og eigið fé. Félagið býr við gengisáhættu vegna sölusamninga, innkaupa og vegna lántöku eða eigna á efnahag félagsins sem eru í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum (ISK). Viðskipti félagsins eiga sér aðallega stað í USD, EUR og DKK en stór hluti starfsemi félagsins á sér stað í dótturfélagi þess P/F Magn í Færeyjum.

Félagið býr við gengisáhættu vegna sölusamninga, innkaupa og lántöku í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum (ISK). Viðskipti félagsins eiga sér aðallega stað í USD og EUR . Kaup á olíu myndar stærstan hluta innflutnings og eru þau viðskipti í USD en salan er að mestum hluta í ISK. Sala í ISK er 51,6%(2015: 82,5%) af heildarsölu, USD 47,9% (2015 16,2%) og aðrir gjaldmiðlar 0,5% (2015; 1,3%)

Magn býr við gengisáhættu vegna sölusamninga og innkaupa í öðrum gjaldmiðlum en DKK. Sá gjaldmiðill sem skapar mesta áhættu er USD. Kaup á olíu myndar stærstan hluta innflutnings og er þau viðskipti í USD en salan er að mestum hluta í DKK: Sala í DKK er 68,5% af af heildarsölu (2015: 75,4%), USD 30,5% (2015: 24,5%) og aðrir gjaldmiðlar 1,0% (2015:0,1%).

Félagið stýrir gengisáhættu sinni með það að markmiði að halda jafnvægi milli eigna og skulda í erlendri mynt, með vikmörkum auk þess að gera sérsamninga við stærstu viðskiptavini félagsins. Skeljungur hefur samið við Bank Nordik og Eik banka, í samráði við Seðlabanka Íslands, og náð samkomulagi við Arion banka um helstu skilmála í tengslum við endurfjármögnun á öllum vaxtaberandi skuldum félagsins.

Gert er ráð fyrir að endurfjármögnunin muni, á ársgrundvelli frá því að samningar taka gildi, lækka fjármagnskostnað félagsins um 160 til 170 milljónir króna frá því sem annars hefði orðið, þó háð skuldsetningu félagsins yfir tímabilið, auk þess sem hún mun draga úr gengisáhættu félagsins.

Krónan styrktist mikið á árinu gagnvart öllum helstu myntum en gengi krónu gagnvart dollar styrktis um 13% og gagnvar danskri krónu um 15%. Hér að neðan má sjá sveiflur í gengi krónu gagnvart dollar og danskri krónu síðustu tvö árin.

 

Olíugengi

Vaxta- , lausafjár – og fjármögnunaráhætta

Vaxta-, lausafjár- og fjármögnunaráhætta er fólgin í því að félagið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, hafi mögulega ekki aðgang að lánsfjármögnun til endurfjármögnunar tímanlega fyrir gjalddaga skulda og/eða verði fyrir neikvæðum áhrifum af vaxtabreytingum og/eða öðrum breyttum aðstæðum á fjármálamörkuðum. Vaxtaberandi eignir Skeljungs eru mjög takmarkaðar og félagið stendur því frammi fyrir áhættu af hækkandi vöxtum.

Lánasafn samstæðunnar samanstendur af lánum í íslenskum krónum, dollurum og dönskum krónum. Á bókum félagsins eru þrjú niðurgreiðslu lán sem bera breytilega vexti að viðbættu föstu álagi auk þess sem félagið hefur aðgang að yfirdráttarlínum sem það getur dregið á í dollar og/eða krónum með veðum í birgðum og viðskiptakröfum félagsins. Yfirdráttarlánin bera einnig breytilega vexti að viðbættu föstu álagi.

Félagið stýrir lausafjáráhættu sinni með reglulegri áætlunargerð, tryggu aðgengi að veltufjármunum auk þess að jafna gjalddögum fjárhagslegra eigna og skuldbindinga. Gert er ráð fyrir að sjóðstreymi frá rekstri félagsins nægi til að greiða afborganir af lánum og því takmarkast viðbótarfjármögnunarþörf þess við hugsanlegar fjárfestingar umfram núverandi áætlanir. 

 

Lánsáhætta

Lánsáhætta eða mótaðilaáhætta, er hættan á fjárhagslegu tapi félagsins af völdum þess að lánadrottinn, leigusali, birgi, viðskiptavinur eða annar mótaðli uppfylli ekki samningsbundnar skuldbindingar sínar. Lánsáhætta félagsins er einkum vegna viðskiptakrafna. Að baki viðskiptakrafna félagsins stendur fjölmennur hópur viðskiptavina sem er dreifður meðal einstaklinga og fyrirtækja í einstökum atvinnugreinum.

Að mati félagsins stendur það ekki frammi fyrir verulegri móttaðilaáhættu vegna viðskiptavina á smásölustigi. Félagið  færir niður viðskiptakröfur og aðrar kröfur vegna áætlaðrar virðisrýrnunar. Niðurfærslan er í bæði sérstök niðurfærsla vegna einstakra verulegra viðskiptakrafna og almenn niðurfærsla. Við mat á almennri niðurfærslu er byggt á sögulegri tapsreynslu, aldursgreiningu krafna og almennu efnahagsástandi.

Félagið hefur sett sér reglur um lánsviðskipti, þar sem leitast við að lágmarka áhættu þar sem horft er til fjárhagsstöðu, lánshæfismats og starfsemi einstakra viðskiptavina auk stöðu atvinnugreina stærstu viðskiptavina. Allir viðskiptavinir félagsins sem eru í lánaviðskiptum eru með lánamörk  á  viðskiptareikningi  sem  þeir  geta  ekki  farið  yfir. 

Í árslok 2016 eru viðskiptakröfur 2,1 milljarðar og er staða 30 stærstu viðskiptakrafna 63,7%.


Áhættustýring dótturfélaga

Skeljungur er eigandi fjögurra dótturfélaga en umfangsmikill rekstur er í einu þeirra, P/F Magn sem fer með rekstur í félagsins í Færeyjum. Í félaginu er virkt innra eftirlit og er virkni þess sannreynt reglulega. Félagið er til að mynda endurskoðað árlega af viðurkenndum aðila og í félaginu eru starfrækt þrjár öryggisnefndir sem hafa eftirlit með rekstri, dreifingu og smásölurekstri félagsins. Magn fylgir ströngum aljóðlegum gæðastöðlum á öllum sviðum rekstrarins.

Magn hefur innleitt og fylgir eftirfarandi gæðastöðlum: ISO 9001 sem tekur á gæðastjórnun félagsins í öllum þáttum starfsemi þess; ISO 14001 sem tekur á umhverfismálum; ISO 18001 sem tekur á vinnuöryggi og heilsuvernd; ISO 27001 sem tekur á upplýsingaöryggi. Allir gæðastaðlar eru vottaðir af óháðum aðila og teknir út einu sinni til tvisvar á ári. Þá hefur félagið hlotið Achilles and F-Pal vottun sem er endurnýjuð með reglulegu millibili en þannig uppfyllir félagið nauðsynlegar örryggiskröfur sem alþjóðleg félög í olíuiðnaði gera til samstarfsaðila sinna.