Skýrsla og yfirlýsing stjórnar og forstjóra

Ársreikningur Skeljungs hf. hefur að geyma samstæðureikning Skeljungs hf. og dótturfélaga þess fyrir árið 2016.
 
Megintilgangur félagsins er innflutningur, sala og dreifing á olíu, en einnig smurolíu, efnavöru og áburði, svo og hverskonar viðskipti með aðrar vörur, bæði í smásölu og heildsölu. Félagið starfar á tveimur landfræðilegum mörkuðum, á Íslandi og í Færeyjum.
Á Íslandi er félagið rekið undir merkjum Skeljungs, Orkunnar og Orkunnar X og starfræktar eru 65 bensínstöðvar og fjórar birgðastöðvar.
P/F Magn fer með starfsemi félagsins í Færeyjum og rekur 11 smásölu- og bensínstöðvar víðs vegar um Færeyjar auk þess að reka tvær birgðastöðvar.
Viðskiptavinir félaganna koma úr öllum geirum samfélagsins.


Rekstur ársins 2016

Samkvæmt yfirliti um heildarafkomu námu tekjur samstæðunnar 45.911 millj. kr. (2015: 36.842 millj. kr.) og hagnaður nam 1.262 millj. kr. (2015: 273 millj. kr.).  Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir samstæðunnar 18.299 millj. kr. (2015: 18.406 millj. kr.) og skuldir  11.187 millj. kr. (2015:  10.928 millj. kr.).
Eigið fé nam 7.112 millj. kr. (2015: 7.478 millj. kr.) og var eiginfjárhlutfall 38,9% (2015: 40,6%).
Meðalfjöldi starfsmanna umreiknað í heilsársstörf var 208 á árinu 2016 (2015: 220).

Á síðastliðnu ári hóf stjórn félagsins undirbúning að skráningu á markað. Þann 9. desember voru bréf félagsins tekin til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq Iceland. SF IV slhf. seldi í útboðinu 23,5% hlut í Skeljungi hf., Arion banki 4% og SÍA II 4% eða samtals 31,5% hlut.
Kostnaður við skráningu, sem fellur á samstæðuna, nam 61 millj. kr. á árinu 2016 og 19 millj.kr. á árinu 2015.

Í byrjun árs ákváðu stjórnir Skeljungs hf. og S fasteigna ehf. að sameina rekstur félaganna undir nafni Skeljungs. Samruninn var staðfestur af embætti Ríkisskattstjóra þann 13. júlí. Þar sem verið var að sameina dótturfélag, í fullri eigu Skeljungs, móðurfélagi hafði samruninn ekki áhrif á hlutafé Skeljungs hf. Samruninn miðaðist við 1. janúar 2016. 

Hlutafé og samþykktir

Skráð hlutafé félagsins nam í árslok 2.100 millj. kr. Hlutafé félagsins er í einum flokki sem skráður er á Nasdaq og njóta allir hlutir sömu réttinda. Hlutafé í árslok skiptist á 1.906 hluthafa en þeir voru 2 í ársbyrjun, SF IV slhf. (99,9999%) og SF IV GP hf. (0,0001%).

Tíu stærstu hluthafar félagsins eru í árslok: 

HluthafiNafnverð í hlutafjárm kr.Eignarhlutfall
SÍA II shf305,114,53%
Arion banki hf.151,77,22%
Gildi lífeyrissjóður149,47,12%
PB 1 hf.131,56,26
Lífeyrissjóður rík. A-deild113,55,41%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn77,23,68%
Söfunarsjóður lífeyrisréttinda65,93,14%
A. C. S safnreikningur I62,12,96%
Festa lífeyrissjóður56,02,67
Stapi lífeyrissjóður56,02,67
10 stærstu hlutafar samtals1.168,455,6%

Atkvæðisrétti í Skeljungi hf. er þannig háttað að 1 kr. jafngildir 1 atkvæði. Þann 26. apríl 2016 var haldinn hluthafafundur í Skeljungi hf. þar sem samþykkt var að lækka hlutfé um kr. 402.674.728 að nafnverði úr kr. 2.502.256.849 í kr. 2.099.582.121. Þann 30. september var hlutfé lækkað í samræmi við ákvörðun aðalfundar og var fjárhæðin greidd hluthöfum félagsins í samræmi við hlutafjáreign þeirra í félaginu og nam heildargreiðsla til þeirra 1.000 millj.kr.

Líkt og fram kom í skráningarlýsingu félagsins leggur stjórn félagsins þó ekki til að  verði greiddur út arður til hluthafa á árinu 2017.

Stjórnarhættir

Stjórn og stjórnendur Skeljungs hf. leggja ríka áherslu á að í starfsemi félagsins séu góðir stjórnarhættir hafðir að leiðarljósi. Góðir stjórnarhættir eru að mati stjórnar og stjórnenda undirstaða bæði trausts og skilvirkni og treystir þannig samband allra haghafa félagsins.

Félagið leitast við  að fylgja "Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja" útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, NASDAQ OMX Iceland og Samtökum atvinnulífsins (leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vef Viðskiptaráðs Íslands www.vi.is.). Stjórnin hefur einnig sett sér starfsreglur sem byggja að miklu leyti á ofangreindum leiðbeiningum og er meðal annars ætlað að skilgreina verksvið stjórnar og forstjóra frekar. 


 Frá birtingu skráningarlýsingar Skeljungs, í tengslum við töku til viðskipta í Kauphöll, í nóvember 2016, hefur Skeljungur að öllu leyti fylgt leiðbeiningum VÍ o.fl., til viðbótar við aðrar innri og ytri reglur um stjórnarhætti.

Í stjórn Skeljungs hf. eru tvær konur og þrír karlar og uppfyllir félagið ákvæði laga um hlutafélög um kynjahlutföll stjórnar félagsins.

Frekari upplýsingar um stjórn og stjórnarhætti er að finna í viðaukanum Stjórnarháttayfirlýsing sem fylgir ársreikningnum.


Ófjárhagsleg upplýsingagjöf

Skeljungur leggur áherslu á að sýna ábyrgð, sem þáttakandi í samfélaginu, og til þess að stuðla að heilbrigðara atvinnulífi.
Í tengslum við breytingar á lögum um ársreikninga í júní 2016, þar sem kveðið er á um upplýsingaskyldu í tengslum við ófjárhagslega upplýsingagjöf, hefur stjórn Skeljungs tekið saman yfirlit um upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál, auk þess að fjalla um stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig félagið spornar við spillingar- og mútumálum.
Yfirlitið er fylgiskjal með ársreikningnum.
 


Yfirlýsing stjórnar og forstjóra

Ársreikningur samstæðunnar er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS), eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu og viðbótar kröfur sem koma fram í íslenskum lögum og reglum um ársreikninga félaga með skráð hlutabréf. Samkvæmt bestu vitneskju stjórnar og forstjóra er það álit stjórnar og forstjóra að ársreikningur samstæðunnar gefi glögga mynd af rekstrarafkomu samstæðunnar á árinu 2016, eignum, skuldum og fjárhagsstöðu 31. desember 2016 og breytingu á handbæru fé á árinu 2016.
Jafnframt er það álit stjórnar og forstjóra að ársreikningurinn gefi glöggt yfirlit um þróun og árangur í rekstri samstæðunnar og stöðu þess og lýsi helstu áhættuþáttum og óvissu sem samstæðan býr við.  
Samkvæmt bestu vitneskju stjórnar og forstjóra er ársreikningur samstæðunnar í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu og viðbótarkröfur sem koma fram í íslenskum lögum og reglum um ársreikninga skráðra félaga.

Stjórn og forstjóri Skeljungs hf. hafa í dag fjallað um ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2016 og staðfesta hann með undirritun sinni. Stjórn og forstjóri leggja til við aðalfund félagsins að samþykkja ársreikninginn.