Laga- og stjórnarháttaumhverfi Skeljungs

Stjórn og stjórnendur Skeljungs hf. leggja ríka áherslu á að í starfsemi félagsins séu góðir stjórnarhættir hafðir að leiðarljósi. Góðir stjórnarhættir eru að mati stjórnar og stjórnenda undirstaða bæði trausts og skilvirkni og treysta þannig samband allra haghafa félagsins.

Þær reglur og leiðbeiningar varðandi stjórnarhætti, sem Skeljungur styðst við í starfsemi sinni, má finna í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, reglum Nasdaq Iceland hf. fyrir útgefendur fjármálagerninga1, 5. útgáfu af leiðbeiningum Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Nasdaq Iceland um stjórnarhætti fyrirtækja2 , og hinum ýmsu reglum er varða félagið beint. Hér er átt við samþykktir félagsins, starfsreglur stjórnar og undirnefnda, viðskipta- og siðareglur, starfskjarastefnu og samfélagsábyrgðarstefnu, sem finna má á heimasíðu félagsins.3

Frá töku hlutabréfa Skeljungs til viðskipta í Kauphöll, í desember 2016, hefur Skeljungur að öllu leyti fylgt leiðbeiningum VÍ o.fl., til viðbótar við aðrar innri og ytri reglur um stjórnarhætti. 

Sem fyrirtæki er fæst við innflutning, birgðahald, dreifingu og sölu á eldsneyti, efnavörum til iðnaðar og matvælaframleiðslu og áburði, lýtur Skeljungur ýmsum opinberum reglum og viðmiðum. Hvað varðar lög er sérstaklega varða rekstur Skeljungs má helst nefna; lög nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, lög nr. 103/1994 um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, lög nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald, lög nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi og efnalögin nr. 61/2013, ásamt þeim reglugerðum sem settar hafa verið út frá nefndum lögum.

Skeljungur hefur sett sér umhverfisstefnu sem inniheldur þau markmið að nýta efni og orku á hagkvæman hátt, að vernda og hlúa að umhverfinu, að allir snúi heilir heim, og að efla vitund starfsmanna um öryggis- og umhverfismál.4  Þá eru til staðar rekstrar- og öryggishandbók sem innihalda ótal verkferla sem farið er eftir í starfsemi félagsins.  

Innra eftirlit og áhættustjórnun

Það er hlutverk stjórnar, ásamt forstjóra, að hafa forystu um að móta stefnu, setja markmið og skilgreina áhættuviðmið félagsins, bæði til skemmri og lengri tíma. Jafnframt að koma á virku kerfi innra eftirlits. Í því felst m.a. að fyrirkomulag innra eftirlits sé formlegt, skjalfest og að virkni þess sé sannreynd reglulega. 

Ekki er starfandi innri endurskoðandi hjá félaginu en ytri endurskoðendur félagsins vinna afmarkaðar úttektir á ferlum.  Undir stjórn Skeljungs starfar endurskoðunarnefnd, sem hefur það hlutverk, samkvæmt starfsreglum nefndarinnar, að fara yfir og meta gæði fjárhagslegra upplýsinga og fyrirkomulag upplýsingagjafar frá stjórnendum og endurskoðendum, bæði hjá móðurfélaginu og á samstæðugrunni. Nefndin skal fara yfir að þær upplýsingar sem stjórnin fær um rekstur, stöðu og framtíðarhorfur félagsins séu áreiðanlegar og gefi sem gleggsta mynd af stöðu félagsins á hverjum tíma. Nánar tiltekið hefur nefndin eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits Skeljungs, áhættustýringu og annarra eftirlitsaðgerða og hefur eftirlit með og yfirfer endurskoðun ársreikninga, samstæðureikninga og annarra fjárhagsupplýsinga félagsins. Nefndin metur einnig óhæði ytri endurskoðenda og hefur eftirlit með öðrum störfum þeirra. 

Áhætta Skeljungs felst í mögulegum atburðum sem aftrað geta félaginu frá því að ná markmiðum sínum. Áhættustjórnun félagsins tekur tillit til allra tegunda áhættu, s.s. á sviði fjárhags, rekstrar, umhverfis og gæða. Aðgerðir félagsins á sviði áhættustjórnunar miða að því að skilgreina, meta, mæla og stýra áhættu í starfsemi félagsins í samræmi við áhættuvilja þess. Skeljungur hefur sett sér ákveðna áhættustefnu, sem setur ramma utan um áhættustýringu félagsins. Markmið félagsins er að stýra áhættu á skilvirkan hátt og tryggja meðvitund um og gagnsæi áhættustýringar á öllum stigum, allt frá stjórn niður á einstaka starfsmenn. Undir stjórn Skeljung starfar sérstök áhættunefnd, sem hefur það hlutverk, samkvæmt starfsreglum nefndarinnar, að staðreyna virkni áhættustýringar innan fyrirtækisins. Nánar tiltekið ber nefndin m.a. ábyrgð á og svarar fyrir gagnsemi og virkni áhættustýringar, sinnir ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn, fylgist með og metur með reglulegu millibili árangur áhættustjórnunarinnar og gerir þær breytingar á markmiðasetningu og framkvæmd sem nauðsynlegar kunna að vera, rýnir helstu áhættuþætti og áhættuprófíl fyrirtækisins, rýnir áhættuskýrslur áður en þær eru lagðar fyrir stjórn og rýnir viðbragðsáætlanir. Fundir nefndarinnar eru þannig umræðuvettvangur fyrir mál er tengjast áhættum sem félagið stendur frammi fyrir og þróun þeirra. Nefndin fundar reglulega vegna þeirra áhættuþátta er skilgreindir hafa verið sem lykiláhættuþættir, auk þess sem hún fundar með öllum sviðum félagsins, með reglulegu millibili. 

Skeljungur er eigandi fjögurra dótturfélaga en umfangsmikill rekstur er í einu þeirra, P/F Magn í Færeyjum. Um endurskoðun reikninga Magns fer eftir þeim lögum og reglum er gilda í Færeyjum. Í Magn er virkt innra eftirlit og er virkni þess sannreynd reglulega. Í félaginu eru starfræktar þrjár öryggisnefndir sem hafa eftirlit með rekstri, dreifingu og smásölurekstri félagsins. Magn fylgir ströngum aljóðlegum gæðastöðlum á öllum sviðum rekstrarins. Magn hefur innleitt og fylgir eftirfarandi gæðastöðlum: ISO 9001 sem tekur á gæðastjórnun félagsins í öllum þáttum starfsemi þess; ISO 14001 sem tekur á umhverfismálum; OHSAS 18001 sem tekur á vinnuöryggi og heilsuvernd; ISO 27001 sem tekur á upplýsingaöryggi. Allir gæðastaðlar eru vottaðir af óháðum aðila og teknir út einu sinni til tvisvar á ári. Þá hefur félagið hlotið Achilles og F-Pal vottun sem er endurnýjuð með reglulegu millibili en þannig uppfyllir félagið nauðsynlegar öryggiskröfur sem alþjóðleg félög í olíuiðnaði gera til samstarfsaðila sinna. 


Samfélagsleg ábyrgð og siðferðisviðmið

Stjórn Skeljungs hefur sett félaginu stefnu um samfélagslega ábyrgð.  Stefnan snertir helstu haghafa Skeljungs sem eru samfélagið í heild sinni, umhverfið, samstarfsaðilar og birgjar, viðskiptavinir og mannauður Skeljungs. Með setningu stefnu um samfélagsábyrgð sýnir Skeljungur vilja sinn til þess að sýna ábyrgð, sem þátttakandi í samfélaginu, og til þess að stuðla að heilbrigðara atvinnulífi. 

Stjórn og starfsfólk Skeljungs hafa jafnframt sett sér viðskipta- og siðareglur, sem nánari leiðarvísi í samskiptum við haghafa, til notkunar í daglegri starfsemi félagsins.  Reglurnar fela í sér loforð til haghafa sem snerta samfélagið nær og fjær, hollustuhætti, öryggi og umhverfið, samfélagslega ábyrgð, sjálfbæra þróun, jöfn tækifæri og vernd gegn áreiti. Reglurnar fjalla einnig um heiðarleika í viðskiptum, í ýmsum birtingarmyndum, varðveislu upplýsinga og eigna, bæði Skeljungs og annarra haghafa, og samskipti við haghafa.


Stjórnskipan

Ekki er í samþykktum Skeljungs gert ráð fyrir svokallaðri fulltrúanefnd, sem samkvæmt 3. mgr. 73. gr. hlutafélagalaga skal, ef til hennar er stofnað, hafa eftirlit með því hvernig félagsstjórn og framkvæmdastjóri ráða málum félagsins, svo og láta aðalfundi í té umsögn um hvort samþykkja beri ársreikninga félagsins og tillögu stjórnar um ráðstöfun hagnaðar. Slík nefnd hefur því ekki verið standsett hjá félaginu.

Stjórnin:

Aðalfundur Skeljungs kýs árlega fimm stjórnarmenn til starfa í stjórn félagsins, auk tveggja varamanna. Stjórn félagsins fer með æðsta vald þess á milli hluthafafunda. Hlutverk stjórnarinnar er að sjá til þess að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Hún skal jafnframt stuðla að viðgangi félagsins og langtímaárangri og hafa eftirlit með daglegum rekstri þess. 

Stjórn Skeljungs hefur sett sér starfsreglur sem eru aðgengilegar á heimasíðu Skeljungs. Starfsreglurnar eru endurskoðaðar árlega. Jafnframt metur stjórnin árlega störf sín, samsetningu, verklag og starfshætti, svo og störf undirnefnda, frammistöðu forstjóra og annarra daglegra stjórnenda. Árangursmat stjórnar fór fram í desember. Þá metur stjórnin þróun félagsins reglulega innan ársins og gætir að því að hún sé í samræmi við markmið þess. 

Í samræmi við starfsreglur stjórnarinnar, fundaði hún ellefu sinnum á árinu 2016. Auk stjórnar sitja stjórnarfundi forstjóri, fjármálastjóri og lögfræðingur félagsins. Full mæting var á nánast alla fundi stjórnarinnar á síðastliðnu ári.  

 

Í stjórn Skeljungs sitja: 

Nafn og kennitala

Jón Diðrik Jónsson, kt. 110463-2009

Fyrst kjörinn í stjórn

janúar 2014

Menntun

B.Sc. Marketing, Florida Institute of Technology 1988, Master Int´l Management, Thunderbird School of Global Management 1990, Owner/President Management (OPM), Harvard Business School Executive Education 2013.

Aðalstarf

Forstjóri Senu ehf.

Starfsferill

Markaðsstjóri Olís 1988-1989, stjórnandi hjá Coca-Cola Company 1990-2001 á Norðurlöndunum, Singapore og Malasíu, Póllandi og Slóveníu, forstjóri Ölgerðar 2001-2004, framkvæmdarstjóri hjá Íslandsbanka / Glitni 2005-2007, eigandi / stjórnandi Draupnis Fjárfestingafélags ehf. frá 2007 og forstjóri Senu frá 2015.

Önnur trúnarðarstörf

Stjórnarformaður Senu ehf. og dótturfélaga, Draupnis fjárfestingafélags ehf., Draupnis-Siglu ehf. og Húsafells hraunlóða ehf., meðstjórnandi í stjórn Magn P/F, Húsafell Resort ehf. og Alþjóðaskólans á Íslandi ehf., sæti í fulltrúaráði Verzlunarskóla Íslands, og í fjárfestingaráði fyrir SÍA I slhf. og SÍA II slhf.

Eignahlutur í Skeljungi

98% hlutur í Draupni fjárfestingafélagi ehf., sem á um 1% hlut í Skeljungi og tæpan 0,7% hlut í SÍA II slhf. (Stefnir íslenski athafnasjóðurinn II), sem er eigandi að rúmum 14,5% hlut í Skeljungi.

Störf fyrir Skeljung

Stjórnarstörf og seta í undirnefndum stjórnar Skeljungs. Stjórnarseta hjá dótturfélagi Skeljungs í Færeyjum, Magn P/F

Hagsmunartengsl

Auk framangreinds eignarhlutar á Jón Diðrik, sem áður segir, sæti í fjárfestingaráði SÍA II slhf., sem á um 14,5% hlut í Skeljungi. Samkvæmt mati tilnefningarnefndar Skeljungs er Jón Diðrik óháður félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum í félaginu, samkvæmt skilgreiningu í leiðbeiningum VÍ o.fl. um góða stjórnarhætti.

Mat

Samkvæmt mati tilnefningarnefndar Skeljungs er Jón Diðrik óháður félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum í félaginu, samkvæmt skilgreiningu í leiðbeiningum VÍ o.fl. um góða stjórnarhætti.

Nafn og kennitala

Birna Ósk Einarsdóttir, meðstjórnandi, kt. 090476-4759

Fyrst kjörinn í stjórn

maí 2015

Menntun

Frá HR, BS gráðu í viðskiptafræði. M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og AMP (Advanced Management Program) frá IESE Business School.

Aðalstarf

Framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Símans hf.

Starfsferill

Ýmis sérfræði- og stjórnunarstörf hjá Símanum frá árinu 2001, t.a.m. kynningafulltrúi, ráðningastjóri, stjórnendaráðgjafi, forstöðumaður verkefnastofu og markaðsmála, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs og framkvæmdastjóri vöru- og nýsköpunarsviðs.

Önnur trúnarðarstörf

Meðstjórnandi hjá Sensa hf. og Radíómiðunar ehf. Varamaður stjórnar hjá Magn P/F.

Eignahlutur í Skeljungi

Enginn.

Störf fyrir Skeljung

Stjórnarstörf og seta í undirnefndum stjórnar Skeljungs. Varamaður stjórnar dótturfélags Skeljungs í Færeyjum, Magn P/F.

Hagsmunartengsl

Engin.

Mat

Samkvæmt mati tilnefningarnefndar Skeljungs er Birna Ósk óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum í félaginu, samkvæmt skilgreiningu í leiðbeiningum VÍ o.fl. um góða stjórnarhætti.

Nafn og kennitala

Trausti Jónsson, varaformaður stjórnar, kt. 100582-5389.

Fyrst kjörinn í stjórn

febrúar 2016

Menntun

B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands 2006, próf í verðbréfaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík 2008.

Aðalstarf

Sjóðsstjóri í sérhæfðum fjárfestingum hjá Stefni hf

Starfsferill

Stundakennari við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 2006- 2009, stundakennari við Háskólann á Bifröst 2009, Eignastýring Kaupþings Banka 2005-2008, Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka 2009-2012, sjóðsstjóri hjá Stefni hf. frá 2012

Önnur trúnarðarstörf

Ýmis stjórnarseta og framkvæmdastjórn lögaðila tengdum SÍA sjóðum Stefnis hf., meðstjórnandi hjá Verne holdings ltd og sæti í varastjórn Jarðborana hf. og Magn P/F

Eignahlutur í Skeljungi

Enginn

Störf fyrir Skeljung

Stjórnarstörf og seta í undirnefndum stjórnar Skeljungs. Varamaður stjórnar dótturfélags Skeljungs í Færeyjum, Magn P/F.

Hagsmunartengsl

Framkvæmdastjóri og prókúruhafi SÍA II slhf., sem á um 14,5% hlut í Skeljungi

Mat

Samkvæmt mati tilnefningarnefndar Skeljungs er Trausti óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess en háður stórum hluthöfum í félaginu, samkvæmt skilgreiningu í leiðbeiningum VÍ o.fl. um góða stjórnarhætti.

Nafn og kennitala

Gunn Ellefsen, meðstjórnandi, kt. 281275-2599

Fyrst kjörinn í stjórn

apríl 2016

Menntun

Cand. Jur. frá Háskólanum í Kaupmannahöfn 2004.

Aðalstarf

Lögmaður hjá Advokatfelagið við Strond 4.

Starfsferill

Störf fyrir Advokatfelagið frá 2004; sem lögmaður frá 2007 og eigandi frá 2012.

Önnur trúnarðarstörf

Stjórnarmaður hjá Magn P/F, Sp/f Advokatsmápartafelagið Gunn Ellefsen og Advokatfelagið við Strond 4 Í/F

Eignahlutur í Skeljungi

Enginn.

Störf fyrir Skeljung

Stjórnarstörf og seta í undirnefndum stjórnar Skeljungs. Stjórnarmaður dótturfélags Skeljungs í Færeyjum, Magn P/F.

Hagsmunartengsl

Engin.

Mat

Samkvæmt mati tilnefningarnefndar Skeljungs er Gunn óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum í félaginu, samkvæmt skilgreiningu í leiðbeiningum VÍ o.fl. um góða stjórnarhætti.

Nafn og kennitala

Jens Meinhard Rasmussen, meðstjórnandi, kt. 290774-3659

Fyrst kjörinn í stjórn

maí 2014

Menntun

Skipstjórapróf frá Faroese Maritime Academy, Tórshavn 1997. Cand. Jur. frá Háskólanum í Kaupmannahöfn 2005.

Aðalstarf

Framkvæmdastjóri Skansi Offshore.

Starfsferill

Fyrsti stýrimaður hjá Bornholmstrafikken A/S 2002-2004, skipamiðlari hjá Atlantic Shipping 2005-2006 og framkvæmdastjóri Skansi Offshore frá 2006.

Önnur trúnarðarstörf

Stjórnarformaður P/F Smyril Line, Magn og the Faroese Merchant Shipowners Association, meðstjórnandi hjá International Chamber of Shipping.

Eignahlutur í Skeljungi

Enginn.

Störf fyrir Skeljung

Stjórnarstörf. Stjórnarformaður dótturfélags Skeljungs í Færeyjum, Magn P/F.

Hagsmunartengsl

Jens Meinhard er stjórnarformaður Smyril Line A/P, sem er viðskipta-vinur Magn P/F, dótturfélags Skeljungs í Færeyjum.

Mat

Samkvæmt mati tilnefningarnefndar Skeljungs er Jens Meinhard óháður félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum í félaginu, samkvæmt skilgreiningu í leiðbeiningum VÍ o.fl. um góða stjórnarhætti.

 
Samkvæmt starfsreglum stjórnar ber formaður stjórnarinnar ábyrgð á samskiptum stjórnar við hluthafa félagsins. Formleg samskipti stjórnar og hluthafa eiga sér stað á hluthafafundum. Hluthafar geta þó hvenær sem er sent athugasemdir og fyrirspurnir til stjórnar á tölvupóstfangið fjarfestar@skeljungur.is. Forstjóri og fjármálastjóri móttaka slíka tölvupósta og koma á framfæri við stjórnina alla.
 

Undirnefndir:

Á liðnu starfsári störfuðu þrjár undirnefndir stjórnar, auk tilnefningarnefndar. 

Hlutverk tilnefningarnefndar er að tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu hjá Skeljungi. Tveir utanaðkomandi aðilar, annar með reynslu af ráðningum og hinn lögfróður, skulu kosnir árlega á aðalfundi félagsins, til setu í nefndinni til eins árs í senn. Þriðji nefndarmaðurinn skal tilnefndur af stjórn. Tilnefningarnefnd Skeljungs var stofnuð af hluthöfum í september sl. Hluthafar kusu í nefndina Katrínu S. Óladóttur, framkvæmdastjóra Hagvangs, og Trausta Fannar Valsson, dósent við Háskóla Íslands. Þá tilnefndi stjórn Skeljungs Jón Diðrik Jónsson, stjórnarformann, til setu í nefndinni.  Öll eru þau óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum í félaginu, samkvæmt skilgreiningu leiðbeininga um góða stjórnarhætti. Við staðfestingu starfsháttastefnu þessarar hefur nefndin hist fimm sinnum vegna undirbúnings tillögu fyrir aðalfund 2017, ýmist með eða án stjórnarmannsins eftir því hvert viðfangsefni fundanna er. Hefur nefndin fundað bæði með stjórnarmönnum félagsins og þeim hluthöfum sem eftir því hafa óskað. Starfsreglur nefndarinnar má finna á heimasíðu Skeljungs.5

Endurskoðunarnefnd er undirnefnd stjórnar Skeljungs og er sem slík skipuð af stjórn til eins árs í senn, á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Markmið hennar er að leitast við að tryggja gæði ársreikninga og annarra fjármálaupplýsinga félagsins og óhæði endurskoðenda þess. Á starfsárinu 2016-2017 sátu í nefndinni Birna Ósk Einarsdóttir og Trausti Jónsson, stjórnarmenn, og Helena Hilmarsdóttir, löggiltur endurskoðandi. Öll eru þau óháð félaginu, daglegum stjórnendum og endurskoðendum þess, auk þess sem Birna og Helena eru óháðar stórum hluthöfum í Skeljungi. Nefndin fundaði fimm sinnum, fyrir utan fundi með stjórn, og var full mæting á fundi nefndanna. Nefndin fundaði jafnframt með ytri endurskoðendum, framkvæmdastjóra fjármálasviðs félagsins, fjármálastjóra og forstöðumanni tölvu og upplýsingatæknideildar. Starfsreglur nefndarinnar má finna á heimasíðu Skeljungs.6

Starfskjaranefnd er jafnframt undirnefnd stjórnar Skeljungs og þannig skipuð af stjórn til eins árs í senn, á fyrsta fundi eftir aðalfund. Markmið nefndarinnar er að auka á skilvirkni, skerpa á verklagi og efla starfshætti stjórnar er snúa að starfskjörum innan félagsins. Á starfsárinu 2016-2017 sátu í nefndinni Jón Diðrik Jónsson og Gunn Ellefsen, stjórnarmenn. Bæði eru þau óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum. Nefndin átti tvo formlega fundi á árinu, auk annarra funda og samskipta, þ.m.t. með utanaðkomandi ráðgjöfum. Starfsreglur nefndarinnar má finna á heimasíðu Skeljungs.7

Áhættunefnd er önnur undirnefnd stjórnar Skeljungs. Tilgangur nefndarinnar er fyrst og fremst að staðreyna virkni áhættustýringar innan fyrirtækisins. Fundir nefndarinnar eru umræðuvettvangur fyrir mál er tengjast áhættum sem félagið stendur frammi fyrir og þróun þeirra. Samkvæmt starfsreglum nefndarinnar er hún skipuð forstjóra, framkvæmdastjórum fjármálasviðs, rekstrarsviðs og fyrirtækjasviðs og forstöðumanni öryggis- og gæðamála. Frá stofnun nefndarinnar hafa fundir hennar verið haldnir í samræmi við starfsreglur hennar, en gert er ráð fyrir fjölgun funda á komandi starfsári, með aukinni skýrslugjöf sviða innan starfseminnar. Starfsreglur nefndarinnar eru aðgengilegar á heimasíðu Skeljungs.8  
 

Framkvæmdastjórn:

Forstjóri skal annast daglegan rekstur félagsins og í þeim efnum fara eftir stefnu og fyrirmælum sem stjórn gefur. Hlutverk forstjóra er nánar skilgreint í samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar, sem og í ráðningarsamningi við félagið. Samþykktir Skeljungs og starfsreglur stjórnarinnar eru aðgengilegar á heimasíðu Skeljungs.9

Forstjóri Skeljungs er Valgeir M. Baldursson:
 
 

Nafn og kennitala

Valgeir M. Baldursson, kt. 150370-4269.

Dags. ráðningar

ágúst 2009.

Menntun

MBA frá Háskólanum í Reykjavík 2007.

Aðalstarf

Forstjóri Skeljungs.

Starfsferill

Ráðgjafi hjá KPMG 2001-2003, framkvæmdastjóri Álits fjárfestinga ehf. 2003-2006, SPRON 2006-2009, sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs frá 2007, fjármálastjóri Skeljungs 2009-2011, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Skeljungs 2011-2014 og forstjóri frá 2014.

Eignahlutur í Skeljungi

Engin.

Kaupréttasamningur við félagið.

Engin.

Hagsmunartengsl

Engin.

Önnur trúnaðarstörf

Stjórnarseta hjá dótturfélögum Skeljungs, öðrum en Magn P/F.

Aðrir er eiga sæti í framkvæmdastjórn Skeljungs eru Benedikt Ólafsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Ingunn Agnes Kro, lögfræðingur, Ingunn Elín Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs, Már Erlingsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og Sigurður Orri Jónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Framkvæmdastjórn Skeljungs fundar að jafnaði vikulega. Í framkvæmdastjórn samstæðunnar sitja til viðbótar Hendrik Egholm, framkvæmdastjóri Magn, og Johnni Poulsen, fjármálastjóri Magn.

Stefna um fjölbreytileika

Að mati félagsins leiðir fjölbreytileiki í hæfni og sjónarmiðum stjórnarmanna og stjórnenda til betri skilnings á félaginu og málefnum þess. Hann gerir stjórnarmönnum og stjórnendum betur kleift að skora á hólm viðteknar skoðanir og ákvarðanir og auðveldar hugmyndum um nýjungar að fá þann meðbyr sem nauðsynlegur kann að vera. Fjölbreytileikinn eykur jafnframt yfirsýn stjórnenda og styður þannig farsæla stjórnun félagsins.  Skeljungur hefur ekki sett sér skriflega stefnu um fjölbreytileika en framangreind sjónarmið félagsins koma fram með ýmsum hætti í starfsháttum félagsins. Stofnuð hefur verið tilnefningarnefnd, sem hefur það að skráðu markmiði og aðalstarfi að  tryggja að stjórn félagsins hafi yfir að búa breidd í hæfni, reynslu og þekkingu. Félagið hefur sett sér jafnréttisstefnu, sem mælir fyrir um ákveðnar greiningar á jafnréttismálum og aðgerðaráætlanir út frá þeim. Auglýsingar um störf hjá félaginu eru ekki kynjamiðaðar og við ráðningar er litið til kynjahlutfalla. Þá er í viðskipta- og siðareglum gefið loforð um að starfstengdar ákvarðanir skulu byggðar á viðeigandi hæfni, verðleikum, frammistöðu og öðrum starfstengdum þáttum. Félagið muni ekki sætta sig við mismunun. Jafnframt að hlutverk starfsmanna sé að bera virðingu fyrir hverjum og einum, sem og ólíkum sjónarmiðum og að skilja það verðmæti sem fólgið sé í fjölbreytileikanum. 


 

Úrskurðir og dómar tengdir Skeljungi

Þann 4. febrúar 2016 var kveðinn upp endanlegur dómur Hæstaréttar (nr. 272/2015), í máli samkeppnisyfirvalda á hendur olíufélögunum, í tengslum við brot gegn samkeppnislögum á árunum fyrir 2001.10
Ákvarðanir Neytendastofu, þar sem auglýsingar Skeljungs hafa verið taldar brjóta gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu:
- Ákvörðun 45/2015 varðandi Orkulykilinn11
- Ákvörðun 1/2013 varðandi V-Power12
- Ákvörðun 33/2010 um auglýsingar Bensínorkunnar, dótturfélags Skeljungs, um ódýrasta eldsneytið.13
- Ákvörðun 29/2004 (þá samkeppnisráðs) um auglýsingar Bensínorkunnar, dótturfélags Skeljungs, um ódýrasta eldsneytið.14

 

Þannig samþykkt á fundi endurskoðunarnefndar þann 13. febrúar 
og á stjórnarfundi þann 16. febrúar 2017