Mannauður:

Mannauðurinn er mikilvægasti hlekkurinn í árangri fyrirtækisins. Starfsþróun og þekking starfsfólks Skeljungs er lykilatriði og kappkostar fyrirtækið að bjóða uppá margskonar fræðslu til að mæta þörfum sem flestra. Vandað er til vals á nýju starfsfólki og mikið kapp er lagt í að taka vel á móti nýju fólki. Jafnrétti er haft að leiðarljósi í hvívetna.

Markmið Skeljungs er að mannauður félagsins sé skipaður ánægðu og hæfu starfsfólki sem býr yfir færni og þekkingu til að takast á við störf sín með skýrum ferlum og öguðum vinnubrögðum. Starfsfólk Skeljungs tekur þátt í að móta og bæta starfsemina og starfar í anda jafnræðis og jafnréttis

Mannréttindi

Hjá Skeljungi leggjum við okkur fram við að virða almenn mannréttindi og erum með því til stuðnings meðal annars samfélagsábyrgðarstefnu, starfsmannastefnu, jafnréttisstefnu, umhverfisstefnu og öryggisstefnu auk viðskipta- og siðareglna. Mannréttindi eru skilgreind sem réttindi allra manna óháð staðbundnum kringumstæðum eða persónueinkennum. Mannréttindi eiga við alla menningarhópa, hugmyndafræði og trúarbrögð. Mannréttindi fela í sér virðingu fyrir öðrum og fyrir sjálfum sér. Mannréttindi eru réttindi sem okkur eru nauðsynleg til að lifa sem manneskjur. Skeljungur leggur áherslu á jöfn tækifæri allra starfsmanna félagsins, að allir hljóti viðeigandi þjálfun í starfi og möguleika að sækja sér námskeið eða endurmenntun. Samvinna og samskipti við stéttarfélög eru ávallt virt.

Öryggi og vinnuvernd falla einnig undir mannréttindi og er það stór þáttur í starfsemi Skeljungs. Það er ætlun okkar að vinnustaðurinn sé öruggur í öllum skilningi.

Við leitumst við að þekkja okkar birgja og samstarfsaðila. Við kynnum okkur viðskipta- og starfshætti þeirra ásamt stefnum sem heyra undir samfélagsábyrgð.


Með það að markmiði að eiga ekki í viðskiptum við aðila sem virða ekki mannréttindi hefur Skeljungur í fjölmörgum viðskiptasamningum sínum riftunarákvæði er fara inn á þessa þætti. Slík ákvæði munu fyrirfinnast í öllum samningum Skeljungs frá 1. mars 2019.

Engum samningum var sagt upp á árinu 2019 vegna brota á mannréttindum.

Engin mál komu upp á árinu 2019 er vörðuðu brot á mannréttindum

 

 

 

 

 

Starfsmannastefna

Mannauðurinn er mikilvægasta auðlind félagsins. Við berum hag starfsmanna fyrir brjósti og viljum vera í fremstu röð hvað varðar réttindi þeirra, öryggi og starfsumhverfi.

Markmið Skeljungs er að hafa innanborð áhugasamt, hæft starfsfólk sem sýnir frumkvæði og metnað í starfi og tekur virkan þátt í að gera félagið sífellt betra. Skeljungur leggur áherslu á framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini og við viljum hafa á að skipa ánægðu starfsfólki sem hefur mikla þekkingu á vörum félagsins og hefur ánægju af því að veita viðkiptavinum Skeljungs afburðarþjónustu.

Starfsumhverfi - Velliðan starfsmanna og starfsgeta í vinnunni er háð samspilum margra þátta, utan og innan vinnustaðarins. Skeljungur leitast við að bjóða starfsmönnum sínum upp á gott starfsumhverfi. Félagið reynir að stuðla að góðu jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og virðing er borin fyrir fjölskylduaðstæðum starfsmanna. Stuðningur stjórnenda, hvatning og regluleg endurgjöf frá þeim er liður í að móta gott starfsumhverfi ásamt stuðningi starfsmanna sín á milli. Starfsmenn eru hvattir til uppbyggilegra samskipta, þar sem gagnkvæm virðing ríkir. Skeljungur er jafnlaunavottað fyrirtæki. Fyllsta jafnréttis á milli kynja er gætt við launaákvarðanir. Nánari útfærslu á því má finna í jafnréttisstefnu félagsins, sem jafnframt tekur á einelti, áreiti og ofbeldi.

Fjölbreytileiki - Að mati félagsins leiðir fjölbreytileiki í hæfni og sjónarmiðum stjórnenda og starfsmanna til betri skilnings á félaginu og málefnum þess. Hann gerir stjórnendum og starfsmönnum betur kleift að skora á hólm viðteknar skoðanir og ákvarðanir og auðveldar hugmyndum um nýjungar að fá þann meðbyr sem nauðsynlegur kann að vera. Fjölbreytileikinn eykur jafnframt yfirsýn stjórnenda og styður þannig farsæla stjórnun félagsins. Skeljungur starfrækir tilnefningarnefnd, sem hefur það að skráðu markmiði og aðalstarfi að tryggja að stjórn félagsins hafi yfir að búa breidd í hæfni, reynslu og þekkingu.

Félagið hefur einnig sett sér jafnréttisstefnu, sem unnar eru greiningar og aðgerðaráætlanir út frá. Auglýsingar um störf hjá félaginu skulu ekki vera kynjamiðaðar og við ráðningar skal litið til kynjahlutfalla. Starfstengdar ákvarðanir skulu byggðar á viðeigandi hæfni, verðleikum, frammistöðu og öðrum starfstengdum þáttum. Félagið mun ekki sætta sig við mismunun. Það er jafnframt hlutverk starfsmanna að bera virðingu fyrir hverjum og einum, sem og ólíkum sjónarmiðum og að skilja það verðmæti sem fólgið er í fjölbreytileikanum.

Starfsmannavelta var 20%. 18 starfsmenn létu af störfum á árinu, þar af fjórir sökum aldurs.

 Skeljungur framkvæmir reglulega starfsmannakannanir, þar sem skoðaðir eru hverju sinni eftirfarandi mælikvarðar: gæði og tengsl starfsmanna; starfsánægja; sjálfstæði til ákvarðanatöku; stuðningur frá stjórnendum; kröfur um árangur; skýr framtíðarsýn; áhugi, virðing og hollusta og þjálfun og þróun. 


Kvarðinn sem notaður er við mælingar er 1-5. Meðalgóður árangur og undir er 1 - 3,69 (mjög ósammála – ósammála – hvorki né / hlutlaus), góður árangur er 3,7 - 4,19 (sammála) og mjög góður árangur er 4,2 - 5 (mjög sammála). 
Nauðsyn er fyrir aðgerðir á bilinu 1 - 3,69

Á árinu 2019 voru starfsmannakannanirnar framkvæmdar tvisvar sinnum. Heildarárangur Skeljungs var að meðaltali 4,0. 

Til samanburðar voru kannanirnar framkvæmdar sjö sinnum á árinu 2018 og var heildarárangur Skeljungs þá að meðaltali 4,09

Jafnréttisstefna

Jafnrétti, þar sem hæfni og frammistaða ræður för, er órofa hluti af menningu fyrirtækisins. Mismunun er ekki liðin.

Starfsfólk Skeljungs á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu. Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni verður ekki liðin. Hjá félaginu er í gildi viðbragðsáætlun komi til slíkra kringumstæðna. Stjórnendum ber skylda til að skapa vinnuskilyrði sem bjóða ekki upp á einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundna eða kynferðislega áreitni á vinnustaðnum. Að sama skapi ber stjórnendum skylda til að taka rétt á málum ef þau koma upp og fylgja verklagsreglum um úrvinnslu slíkra mála í einu og öllu.

Hjá Skeljungi er í gildi jafnréttisáætlun, í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu kvenna og karla. Tilgangur jafnréttisáætlunar er að tryggja jafnrétti kynjanna og að allir hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfileika sína og krafta í starfi óháð kyni. Áætlunin tekur til launa, starfsþróunar, samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs og kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni. Unnin skal árlega greining og aðgerðaáætlun úr frá jafnréttisáætluninni.

Við ákvörðun launa skal gæta að ekki sé mismunað vegna kyns. Starfsmönnum á að greiða jöfn laun fyrir sömu störf og jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum skulu ekki fela í sér kynjamismunun. Það gildir jafnt um frammistöðu í starfi og önnur áunnin réttindi.

Við greiningu á jafnréttisáætlun kom í ljós að hjá Skeljungi vantar markmið fyrir jafnréttisáætlun. Ákveðið hefur verið að setja á fót nefnd sem mun hittast tvisvar á ári , leggja félaginu markmið og fylgja þeim eftir.

Engin tilvik er vörðuðu einelti, kynbundið ofbeldi eða kynbundið eða kynferðisleg áreitni voru tilkynnt á árunum 2019 og 2018

Í stjórn Skeljungs sitja tvær konur og þrír karlmenn. Af starfsmönnum voru 16 konur á móti 73 körlum


Þann 31. október 2018 skrifaði aðstoðarforstjóri Skeljungs undir Jafnvægisvog Félags kvenna í atvinnulífinu. Verkefnið hefur það m.a. að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. 

Jafnlaunavottun

Skeljungur var sjöunda íslenska fyrirtækið til að hljóta jafnlaunavottun en Skeljungur hlaut þá vottun á árinu 2017.

 

 

Skeljungur hefur sett sér markmið um að kynjaskiptur launamunur fari ekki yfir 3%.

 Markmiðið náðist ekki árinu 2019 og var óútskýrður launamunur kynjanna 4,2%, karlmönnum í hag. 

Á árinu 2018 reyndist óútskýrður launamunur kynjanna 0,8%, karlmönnum í hag.

Launamunur hefur verið leiðréttur og er árið 2020 = 0,7%. 

Skekkjan árið 2019 útskýrðist einna helst  af breytingum  á skipuriti og rangri starfaflokkun.


Fræðslustefna

Fræðsla og þjálfun - Eitt helsta keppikefli Skeljungs er að starfsfólk sé öruggt við vinnu sína og leggur félagið því áherslu á námskeið sem stuðla að öryggi á vinnustað. Meðferð orkugjafa er vandmeðfarin og nýir starfsmenn sem að því koma skulu undantekningarlaust fá markvissa nýliðaþjálfun. Að auki býður félagið starfsfólki upp á önnur námskeið sem tryggja nauðsynlega þekkingu starfsmanna í starfi og fræðslu sem stuðla skal að framförum í starfi. Stjórnendur skulu vera vakandi yfir fræðsluþörf starfsmanna, sem skal metin í reglulegum starfsmannasamtölum.

Á árinu 2019 greiddi Skeljungur samkvæmt bókum félagsins 7,8 milljónir króna í námskeið fyrir starfsmenn sína, samanborið við 7,2 milljónir króna árið áður. Til að mynda var um að ræða endurmenntunarnámskeið fyrir bílstjóra, brunavarnanámskeið, námskeið í fyrstu hjálp og stjórnunarnámskeið.

58% Starfsmanna sóttu frammistöðumat á árinu 2019 þar af voru 25% konur en 67% karlar. 

Heilsustefna

Heilsufar - Skeljungur hvetur starfsfólk sitt til heilsusamlegs lífernis, jafnt líkamlegs sem andlegs. Starfsmenn skulu geta sótt sér fjárstyrk vegna íþrótta eða annars er tengist heilsueflingu. Skeljungur býður starfsfólki sínu upp á heilsufarsmælingar og sjúkdómavarnir. Reglulega eru í boði fyrirlestrar eða aðrar uppákomur þar sem hreyfing, hollusta eða andleg vellíðan er höfð í fyrirrúmi.

Á árinu 2019 greiddi Skeljungur, samkvæmt bókum félagsins, um 600 þúsund krónur fyrir ýmiss konar viðburði tengda heilsufari starfsmanna og 1,4 milljónir króna í hollt millimál sem er á pari við þær upphæðir sem fóru í viðburði tengda heilsufari starfsmanna og hollt millimál á árinu áður þrátt fyrir að starfsmönnum hafi fækkað á milli ára.